Berglind bloggar.. um lífið og tilveruna í bland við allt annað...

12.03.2014 14:53

14.02.2014 11:23

Valentínusardagurinn er í dag.. aftur!
Þetta er nú fljótt að líða verð ég að segja.. en ég læt flakka þennan árlega pistil engu að síður þar sem ég minni á hvað þessi dagur er skemmtilegur og að mínu mati ættu Íslendingar alls ekki að skammast sín fyrir að taka upp þennan forna sið sem er upprunalega frá Rómverjum! (hættið plís að kalla þetta ameríska hefð, þó kaninn hafi verið duglegur að tileinka sér daginn)

 

Ein af fjölmörgum sögum um þennan dag hljómar á þá leið að rómverskur keisari er bar nafnið Claudeus Gothecus ríkti í Róm 270 e.kr og hafði fyrirskipað að allir Rómverjar ættu að dýrka tólf guði og þeir sem ástunduðu kristna trú ættu von á dauðadómi. 
Valentínus nokkur var ákveðinn í að láta það ekki stoppa sig í að bera boðskap trúar sinnar áfram og var fyrir vikið handtekinn og varpað í dýflissu.  
Fangavörðurinn sá að hann gæti nýtt sér síðustu viku Valentínusar á lífi og fengið hann til að kenna blindri  dóttur sinni en Valentínus þótti afbragðs kennari.  Júlía hét stúlkan og var afburða greind og fljót að læra.  Valentínus sagði henni sögur frá glæstum tíma Rómaveldis, hann lýsti fyrir henni undrum náttúrunnar, lagði fyrir hana stærðfræði þrautir og sagði henni frá Guði.  Hún sá heiminn með augum hans, treysti á vísdómsorð hans og fann huggun í styrk hans. 
"Valentínus, heyri Guð allar bænir?" spurði hún einn daginn.  "Já barnið mitt, hann heyrir hverja og eina bæn."
Júlía sagði honum þá frá því að á hverjum morgni og hverju kvöldi bæði hún fyrir því að hún mætti sjá heiminn og upplifa með eigin augum allt sem hann hafði sagt henni frá.  "Guð gerir það sem er okkur fyrir bestu ef við aðeins trúum á hann af heilum hug og hreinu hjarta."
Þau sátu hönd í hönd og fóru hvert með sína bænina þegar skyndilega birtir til í dýflissunni og Júlía hrópar hátt "Ég sé Valentínus, ég sé!"   "Lof sé Guði" svarði Valentínus og féll á kné í þakkarbæn. 

Síðasta kvöld Valentínusar á lífi skrifaði hann Júlíu bréf þar sem hann þakkaði henni fyrir að gera síðustu daga sína á lífi svo fagra og hvatti hana til að fylgja hjartanu og Guði.  Undir það skrifaði hann "Þinn Valentínus."
Dóm hans var framfylgt daginn eftir, 14. febrúar 270 e.kr. nærri hliði sem var seinna nefnt "Porta Valentini" honum til heiðurs (í dag kallað "Porta del Popolo").  Hann var jarðsettur þar sem kirkja heilagrar Praxedes stendur í Róm.  Sögur herma að Júlía hafi gróðursett möndlutré með bleikum blómum nálægt gröf hans og er það tré í dag minnisvarði um kærleik og vináttu þeirra. 
Þannig æxlaðist það að 14 febrúar ár hvert skiptist fólk á skilaboðum um ást, vináttu og tryggð um allan heim.

 

Notaðu nú tækifærið og segðu þeim sem þér þykir vænt um hversu mikils virði þeir eru þér.  Þetta er ekki spurning um að kaupa blóm eða súkkulaði heldur eiga góða stund með uppáhalds fólkinu sínu og njóta þess að segja "Ég elska þig".

Njóti dagsins elskurnar mínar! ég veit að ég mun gera það (enda afmælisprinsessa í dag) ♥  
XOXO

  • 1
eXTReMe Tracker